Hilmar Gunnarsson
í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ
Fyrir heimabæinn minn

Interiors with Color & Character

Based in Totronto, Canada
Mosfellingurinn Hilmar Gunnarsson hefur ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðismanna í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hilmar er flestum Mosfellingum kunnur en hann hefur m.a. gegnt stöðu ritstjóra bæjarblaðsins Mosfellings undanfarin 20 ár og haldið utan um bæjarhátíðina Í túninu heima og félagsheimilið Hlégarð síðustu ár.
Hilmar segir að ákvörðunin sé tekin af brennandi áhuga og einlægum vilja til að leggja sitt af mörkum fyrir framtíð bæjarins.
„Við búum svo vel að hér í Mosó er fjölbreytt og blómstrandi menningarlíf, við eigum og rekum góða skóla og þjónusta við íbúa er að mínu mati nokkuð góð. En eins og annars staðar er alltaf tilefni til að gera betur. Bærinn er að stækka og það er í mörg horn að líta ef við ætlum að ná að halda í bæjarbraginn sem er okkur svo kær. Í sveitarstjórn þurfum við fólk sem skilur þarfir og daglegt líf bæjarbúa og er tilbúið að vinna með öllum þeim sem vilja leggja hönd á plóg við að byggja enn frekar upp okkar góða samfélag.“
Hilmar hefur í gegnum störf sín kynnst samfélaginu náið og fylgst með þróun bæjarins á breyttum tímum. Hann segir að sú reynsla muni nýtast vel í pólitískri forystu þar sem kjörnir fulltrúar hafi bæði skýra framtíðarsýn og vilja til að forgangsraða í þágu íbúa.
„Mosó er ört vaxandi bær og það skiptir okkur máli að hér sé góð þjónusta við íbúa á öllum aldri, ekki síst fjölskyldufólk. Það er líka mikilvægt að stjórnsýslan njóti trausts íbúa og að rekstur bæjarfélagsins sé skilvirkur. Það verður að sinna uppbyggingu og viðhaldi innviða af krafti og alúð og búa þannig um hnútana að hér blómstri áfram fjölbreytt atvinnulíf, menning, íþróttastarf og skólar sem börnunum okkar líður vel í. Allt eru þetta þættir sem bæjaryfirvöld bera ábyrgð á dag hvern og höfða jafnframt sterkt til mín.
Ég hef verið svo lánsamur að kynnast öllum krókum og kimum samfélagsins okkar og hef öðlast innsýn í það sem skiptir máli, það sem gerir Mosó að Mosó. Nú býð ég fram krafta mína á öðrum vettvangi og hlakka til að takast á við nýjar og krefjandi áskoranir – fyrir heimabæinn minn.“
Hilmar er giftur Oddnýju Þóru Logadóttur, kennara við Helgafellsskóla og eiga þau saman synina Kára 6 ára, Loga 11 ára og Kristófer 14 ára. Fjölskyldan hefur alla tíð búið í Mosfellsbæ, áður Mosfellssveit, ef frá eru talin námsár Hilmars í Þrándheimi í Noregi þar sem hann lauk námi í grafískri hönnun.
Hilmar segist eiga von á metþátttöku í prófkjöri Sjálfstæðismanna þann 31. janúar næstkomandi og finnur að það er hugur í Mosfellingum.
